skalmold
Vgguvsur Yggdrasils
1. Múspell
Kvika streymir og kraftar losna,
klettar brenna.
Barnið dreymir en taugar trosna,
tárin renna.
Bráðna steinar og bergið flýtur,
brostnir draumar.
Ljósið veinar og loginn hvitur,
landið kraumar.
Bállid sem veldur bardögum
bjarma á kveldið kastar.
Surtur fer heldur hamförum,
hér sefur eldur fastar.
Jötnar æða um jörð í molum.
Jöklar gráta.
Ísinn bræða á æstum kolum.
Æpir hnáta.
Móðir huggar þar mædda dóttur.
Múspell fagnar.
Dansa skuggar er dofnar þróttur.
Dagur þagnar.
Þú deyrð í nótt!
Himinninn er hulinn sóti,
hraunið rennur okkur móti.
Svartnætti til allra átta,
illt er myrkur Múspellsnátta.
Finnum hvernig fætur sviða,
feigir eftir okkur biða.
Saman munum lifið láta,
lítil rödd er hætt að gráta.
Ryðst úr sprungum, gjám og gjótum
griðarbál í risafljótum.
Loki gefur lausan tauminn,
leikur sér striðan strauminn.
Liggjum við áu litlu skeri,
lyftist glóðin nær.
Sárt að hérna beinin beri
barnung dóttir kær.
Loks ég finn að lítill skrokkur
lætur eftir sitt.
Hraunið breiðir yfir okkur,
elsku barnið mitt.
2. Niflheimur
Sem vetur konungur í klakahelli,
út liðast Níðhöggur á Nábítsvelli.
Hrímþursar fylgja með á svörtu svelli.
Blikandi norðurljós á Niflheimsþaki,
þrúgandi þögnin heldur traustataki.
Já, hér er ekkert nema kyrrð og klaki.
Þennan stað hýsir þjáningin,
þursarnir vísast kaldir.
Heimurinn frýs við himininn,
hér sefur ís um aldir.
Þursarnir væla meðan vindar gnauða
og rokið skilur eftir skika auða.
Ísinn er sprunginn og hann spúir dauða.
Sofðu. Sofðu.
Í lofti þokkafullar þokuslæður.
Hér er það ísinn sem að ríkjum ræður.
Hér deyja mennirnir og Múspellsbræður.
Sofðu. Sofðu.
Nýr dagur rís.
Hér sefur ís.
Niflheimahliðin, þar fordæmdur fer.
Dagur er risinn en dimmt hvar sem er.
Dóttir mín litla, hvað gerði ég þér?
Þá gýs úr Hvergelmi með ógn og ótta
og þar með leggja allir lífs á flótta.
Það birtir ekki Nifls- á milli nótta.
Sofðu. Sofðu.
Þar svífur vætturin á vængjum þöndum.
Við erum fönguð þar sem fátæk stöndum
og bundin kyrfilega klakaböndum.
Sofðu. Sofðu.
Nýr dagur rís.
Hér sefur ís.
Léttir það varð þegar dóttir mín dó,
sofðu sem fastast og finndu þér ró,
faðmur minn verndar frá kulda og snjó.
3. Niðavellir
Niðavellir, náhvítur máninn skín.
Dvergahellir, dulúð þér villir sýn.
Sindradætur, synir og börnin öll,
vetrarnætur, verma þau klettafjöll.
Aðrir byggja hús og hallir, kastala og kofa.
Komið inn í hellinn því að hér, hér er gott að sofa.
Galdrastafir, grafnir í stóran stein,
dvergagrafir, dysjar og gömul bein.
Heljarstyrkur, hertekur djúpan dal.
Niðamyrkur, nær inn í gullinn sal.
Leggist niður börnin mín, já, stór er okkar stofa.
Steingólfið er tandurhreint og hér, hér er gott að sofa.
Trónir á mergi tinnugler,
tindar úr bergi háir.
Sindri og Hergill halla sér,
hér sofa dvergar gráir.
Heyr, mín kæra hefðarfrú,
hér er gott að sofa.
Á sig taka náðir nú,
niðahjón og börnin þrjú.
Þegar heyrist þrumugnýr,
Þór við skulum lofa.
Okkur geymir hellir hlýr,
hér er gott að sofa.
Náinn syngur næturljóð,
núna sefur dvergaþjóð.
[English translation:]
Niðavellir [geographical place name, meaning "Dark Valley"]
Niðavellir, a corpse-white moon shines.
Dwarf-cave, the mystery deceives your view.
Sindri's daughters, sons, and all children,
in winter nights, they warm themselves in the stony mountains.
Others build house and halls, castles and cabins.
Come into the cave, because here, here it is good to sleep.
Magical staves carved in a massive stone,
dwarf-graves, cairns, and old bones.
Hel's power, captured in the deep valley.
Pitch-black darkness (nearly), in the golden hall.
Lie down my children, yes, great is our living room.
The stone floor is sparkling clean and here, here it is good to sleep.
Being enthroned on flinty bedrock,
the peaks of high mountains.
Sindri and Hergill take a nap;
the gray dwarves sleep here.
Hear, my dear grande dame,
Here it is good to sleep.
Falling asleep now,
the dark couple and the three children.
When the clap of thunder is heard,
We shall praise Thor.
Inside our warm cave,
here it is good to sleep.
The indwellers sing a lullaby,
now the dwarf-folk are sleeping.
4. Miðgarður
Manstu hvað gerðist í Miðgarði þá?
Ég sá, ég sá.
Margt fyrir löngu var búið til lag,
ljóðið svo skrautlega skrifað.
Hetju sem barðist við vængjaða vá?
Ég sá, ég sá.
Baldur sem barðist af drengskap þann dag,
dó svo að við gætum lifað.
Vafrandi enn um hrollkalt hraun,
hrakin sig glennir vofa.
Hitinn frá brennu huggar raun,
hér sofa menn í kofa.
Kvöld úr norðri, kalt í hlíðum,
knýr að dyrum myrkrið svart.
Þolinmóð við þannig bíðum
þess að verði aftur bjart.
Traustur máttur réttra rúna
róar geð er vindur hvín.
Sorgir allar sefast núna,
sofðu, unga ástin mín.
5. Útgarður
Ró yfir röstum.
Ró yfir þröstum.
Ró yfir höllum.
Ró yfir gjöllum.
Ró yfir töngum.
Ró yfir dröngum.
Ró yfir hjöllum.
Ró yfir stöllum.
Vöknum seint og sjáum
sól á himni bláum.
Ef að líkum lætur
leggjum við upp í ferðalag.
Föngum ferðalanga,
fyllum maga svanga,
leggjumst sæl og síðan
sofum við fram á næsta dag.
Ró yfir jötnum.
Ró yfir vötnum.
Ró yfir fjöllum.
Ró yfir völlum.
Ró yfir stjörnum.
Ró yfir börnum.
Ró yfir tröllum.
Ró yfir öllum.
Förum seint að sofa
sátt í okkar kofa.
Þó að veður versni
vöknum alls ekki fyrir því.
Þar í hrúgu hrjóta
hávær börn til fóta,
þau skal ekkert angra,
æsir, menn eða skúraský.
Veggir Útgarðs verja,
vopnin okkar merja
bæði hjálm og höfuð
herfylkinga í vígahug.
Það er gott og gaman
grey að drepa saman.
Þegar birtu bregður
bjargast þeir sem að sýna dug.
Útgarða- brött er Loka leið,
liggur um vötn og sveitir,
hefur þar kött og Hugaskeið,
hér sofa jötnar feitir.
Látum kylfur kremja,
kinnbein sundur lemja.
Drekkum mjöð og mungát,
meðan höfum við nokkurn þrótt.
Síðan brjótum beinin,
berjum þeim við steininn.
Svo við dans og drykkju
dugum við fram á rauðanótt.
Vöknum seint og sjáum
sól á himni bláum.
Ef að líkum lætur
leggjum við upp í ferðalag.
Föngum ferðalanga,
fyllum maga svanga,
leggjumst sæl og síðan
sofum við fram á næsta dag.
6. Álfheimur
Úti blæs og fjörður frýs,
fimbulvetur ræður.
Yfir vakir álfadís,
inni loga glæður.
Varúlfs heyrist vígagól,
vargurinn er óður.
Álfabarn í krömum kjól,
kúrir sig hjá móður.
Hrynja og skjálfa gljúfragil,
grýta þig bjálfar magrir.
Heima þeir sjálfir halda til,
hér sofa álfar fagrir.
Þrumuguðinn skóginn skók,
skjól er Óðinn lofum.
Lesum við á lærða bók,
leggjumst þar og sofum.
Álfabörn í hárri höll,
heyrist enginn grátur.
Ráfa úti risar, tröll.
Ráðast álfagátur.
Kvöldin brenna kaldar senn,
kálfsins spenna græðir.
Völdin renna aldar enn.
Álfsins penna ræðir:
Hlýja greiðir hálfa leið,
harma- sneiðir kveinið.
Lýja reiðir álfa eið,
arma neyðir veinið.
7. Ásgarður
Einherjar streyma frá Iðavelli,
enginn gaf líf sitt við leikinn í dag.
Flétta í dróttkvætt og fornyrðislag,
fimlegar vísur um Gnipahelli.
Þurrka af sverðunum bleksvart blóðið,
brynjunum kasta í Drekkingarhyl,
hreinsa og strjúka og hrista svo til.
Hungraðir allir, svo inn þeim bjóðið.
Glaumurinn berst yfir gang til okkar,
goðin þar sitja og drekka sinn mjöð.
Yggdrasils skýla þér bolur og blöð,
bardagaherir og stórir flokkar.
Þagnaðu, anginn og þægur vertu,
þú ert af ása og konungaætt.
Fátt er þar úti sem fær okkur hrætt,
Freyja þín gætir svo hólpinn ertu.
Ef ég þessu ljóði lyki
líklega við heyrðum köll:
Horfir hann frá Breiðabliki,
Baldur, yfir okkur öll.
Valhallar blæs til vindurinn,
veinandi hvæs og brestir.
Heimdallur læsir hingað inn,
hér sofa æsir mestir.
Sofðu nú lengi og sofðu vel,
sængin er dýrasti dúkur,
– geymi þig Óðinn og gleymd sé Hel –
gullsleginn svæfillinn mjúkur.
Fegurðin, gáfur og þokki þinn
þykja mér feykinæg borgun.
Vættirnar geymi þig, vinur minn,
við sjáumst aftur á morgun.
8. Helheimur
Brakar í jöklum og beinin eru köld,
blásvart myrkrið öskrar því að nú er komið kvöld.
Gjallarbrú trónir og minnir á sinn mátt.
Það eru menn þarna úti sem ekkert geta átt.
Fordæmdir ýlfra og festa enga ró,
fingurnir sem eitt sinn bærðust, núna þaktir snjó.
Meinað að sofa er myrkrið kæfir þá.
Það eru menn þarna úti sem aldrei birtu sjá.
Í Hel.
Hér sefur enginn vel.
Í Hel.
Drottningin horfir er dæmdir missa vit,
dagurinn er horfinn og með barnið mitt ég sit.
Tárin þau frjósa er mænir hún á mig.
Það eru menn þarna úti sem vilja taka þig.
Í Hel.
Hér sefur enginn vel.
Í Hel.
Í Hel.
Hér sefur enginn vel.
Lífið víst þráir ljós og yl,
liggja þar smáir, kaldir,
horfa þeir bláir Heljar til,
hér sofa náir kaldir.
9. Vanaheimur
Vanir vísir.
Flesta fýsir,
framtíð finna,
sögur sinna.
Vanir eru vísir.
Vissu flesta fýsir,
framtíð sína finna,
frægðarsögur sinna.
Forynja banar ferðalang,
feikn yfir hana rignir.
Hreykir sér svanur hátt á drang,
hér sofa vanir hyggnir.
Vaknar vorið,
barn er borið.
Flýgur Freyja,
djöflar deyja.
Vaknar núna vorið,
vanabarn er borið.
Flýgur yfir Freyja,
fimbuldjöflar deyja.
Nýtt upphaf þegar Freyju þér ég fel
og Frigg skal rækta vandað hugarþel.
Hér svala máttu þreytu þinni,
því segi ég það fyrsta sinni:
Nú blótum við því barnið sefur vel.
Nýr dagur rís og fer svo allt of fljótt.
Kvöld færist yfir, loks er komin nótt.
Hér svala máttu þreytu þinni,
því segi ég það öðru sinni:
Nú blótum við því barnið sefur rótt.
Nýr kafli hefst og tunglsins skin er skært,
og skýin hafa hulu sína fært.
Hér svala máttu þreytu þinni,
því segi ég það þriðja sinni:
Nú blótum við því barnið sefur vært.
Lyrics in plain text format