Sól Án Varma
Sól Án Varma
1. Afbrigði I
Í þeim eiginlega og efnislega heimi sem við túlkum sem raunveruleikann, er nú runnin upp sú stund sem við spáðum fyrir um og höfum beðið eftir með hinum mesta óhug og hryllingi. Dómur hefur verið kveðinn og er niðurstaðan sú að tíminn er á þrotum. Því höfum við engan möguleika á að stíga skref aftur á bak eða hopa. Engar bænir eða annar viðbúnaður geta veitt okkur lausn. Frelsun og friður af hvers kyns tagi eru utan seilingar. Við erum dæmd máttlaus og knésett fyrir fótum örlaga okkar.
Allt mun falla.
2. Afbrigði II
Sjáðu hvernig himnarnir opnast og hvernig eldi rignir niður
er innsiglin öll eru rifin upp með rótum
og sjáðu heimshöfin gufa upp og hvar fjallgarðarnir loga
þá ég úr kaleiknum helli
Ég sé hvar rætur trésins liggja rotnar
og hvar hamar réttlætis klofnar
þar sem höfuðskeljar hinna saklausu brotna
Ég sé turnana falla, í fjarska hvar borgirnar brenna
þar sem vægðarlaust svartnættið umlykur allt
3. Afbrigði III
Eldurinn mun gleypa í sig allt efni og mun á endanum leysa jörðina og umheiminn upp í gufur. Kjarni sólarinnar mun draga að sér þessar gufur þar til ekkert situr eftir í hinu umlykjandi tómi. Mun kjarninn þá dragast inn í sig sjálfan þar til hann springur og þar með fæðir hinn nýja heim.
Allt mun falla.
4. Afbrigði IV
Inn í tómið ég stari
Himnar af svörtu
ófyrirgefandi
og breiðir.
Þeir neita mér um frest minna daga
Hinn mikli aðallykill
bræddur í hendi moldar og sjós.
Blæðir á hendur þeirra sem sjá
sannleika, falinn milli beina og holds
neðan endurskins af blóði svo fersku
innan veggja hugans, lykillinn opnar eina hliðið.
Greiptur í örlög, þú sérð ei meir fyrr en of seint
Brjótandi baug hins deyjandi huga
Blik af kerti við eldstól
kastar skugga af eyðilagðri veru
andardráttur svo hægur
augun spýta eldi sínum til einskis
Þegar nærri, þá sést veran í réttu formi
Formi hins sama og af reyk
Undirmeðvitund bælir orðin sem í lokin
tilheyra líkama og sál, að eilífu bundin
þar sem lifir ekkert ljós, legg niður þinn líkama
Þín gröf verður þessi jörð
Þín gröf verður þessi jörð
5. Afbrigði V
Himninum sundrað
svo aldrei skín aftur sól
ljósið sem okkur gaf líf
mun ætíð framar vera hulið
Ekkert lýsir upp vora hrörnandi jörð
nema eldar og bál úlfanna
Myrkrið hefur þúsund augu
og skelfur við lofsöng hnífanna
Svartar þokur og ský
nú ríkja yfir öllu
Mannvirki öll og stoðir
sameinast öldum tímans
Lífi og öllu handan þess
er sundrað og brotið niður
þegar líflínan er skorin
og sigri er náð að fullu
6. Afbrigði VI
Ekki í gylltum höllum, ljós þíns friðar
ellegar í brenndum borgum er rísa á svörtum söndum
þar í eyðimörkinni rísa líkneskin líkt og göndull Vána
Afburðar úrkynjun
Í guðlausri náttúrunni
þar sem þú fellur á kné þér og drýpur höfði í duftið
í óttablandinni lotningu frammi fyrir náttúrulausum Guði
Yfirburðar afbrigði
Fellur úr náð líkt og loftsteinn til jarðar
sem kastar vægðarlausum skuggum
yfir ösku hinnar föllnu sköpunar
7. Afbrigði VII
Máttugastur og mestur,
myrkasti og versti veraldar dróttinn
nálgast nú með ógnarhraða
og stormar yfir alla veröld.
Sólin sortnar, himnar brotna,
vindar kólna, jarðir fölna,
grös öll grána, húðir blána,
bein mölvast, sálir glatast.
Nú hefst endirinn,
ögurstundin er nú runnin upp.
Risinn er ég úr dvala mínum
og stíg ég nú fram til að fylgja mínu verki.
Allt verður gjört að engu
í eilífðar svartnætti mínu
og mun ég sem bylur og stórflóð
jafna allt við jörðu og hana síðan gleypa.
Ég hræðist enga djöfla eða engla
heldur krjúpa guðir á kné fyrir mér.
Ég er verri en allar martraðir manna
og skaðlegri en allir harmar heimsins.
Ég hremmi ávöxt jarðar í klær mínar
og tæti í sundur skóga hennar og grundir.
Já, verk mitt er það hinsta
sem heimur þessi mun sjá.
Harmar heimsins
harma heiminn.
8. Afbrigði VIII
Þögnin brotnar eins og vonir mannkyns þegar þrúgandi myrkur og reykur hvolfist yfir og eldhafið kviknar úr iðrum reyksins með djúpum drunum og brestum svo skerandi. Fjalldrangar molna og bergborgir hrynja og bráðna í kvikunni glóandi á meðan himininn brotnar inn í sig í dauðans sanna ljósi. Hraunið flæðir án afláts um sléttur og skóga og gjöreyðir öllu sem í vegi er á meðan flekar jarðar skiljast og skapa gljúfur svo djúp að botn sést ekki. Hafið og vötnin uppgufuð verða að súru regni sem steypist yfir gjörvallan heim og brennir hold og sinar svo sést inn að beini.
Endalokin nálgast óðum er yfirborðið hverfur meira og meira uns ekkert er eftir nema öldumikið kvikuhafið sem engu eyrir nema bergjökum sem sökkva þegar allt tekur að falla.
Endir heimsins er nú og nú allt skal enda.
Allt skal enda.
9. Afbrigði IX
Sól án varma
Myrkið skín í draumhvolfi
innan seilingar
og sköpunin tvístrast
Úr grárri þokunni
loga skurðgoð fortíðar
alelda minnisvarðar
morknir og fúnir
Mitt afl gegn allra mætti
svo undurlítils gætti
Var furða þó mér þætti
sem því væri hent á glæ
Fagurt er að líta á ljósgeislum
er heim sé ég hverfa á himinásum
Vonarstjörnu veikra manna
Skundaði að skýbaki, brotinn maður í moldarfjötrum fram yfir líf lítur
Heift míns hjarta hrífi þig á braut
Með sárum þú sorgartölum, dapran dauða dregur mér um höfuð
Því ótrúan eið hef ég svarið og fús geng helveg að hlið óvinar
10. Afbrigði X
Allt mun falla.
11. Afbrigði XI
Leiftra Þú, Sól,
sem eyðir og elskar án varma,
er við lítum inn í auga Þitt.
Sex þúsund augu,
gegn einu,
sem gleymir engu,
og geymir allt.
Veit oss þinn ljóma,
svo við megum aldrei gleyma,
okkar illsku og gleymsku,
sem ritaði fall mannkyns,
í bók hinna brenndu.
bókin sem ljómar,
af brenndum syndum,
líkt og illgresi,
sem þráir að brenna,
og verða að sinu.
Við berum ösku hennar á enni okkar,
og störum djúpt og hiklaust
inn í sólarleg hins deyjandi guðs,
sem brennur af dýrð og vitneskju
um framtíð og fortíð.
Við megum aldrei gleyma,
þó við séum brunnin,
að óupplýstur skugginn
varð okkur að bana.
Við lítum inn í dauðann,
og málum hann fagran
með geislum Þínum
og varðveitum minninguna
um bók hinna brenndu,
því hún býr í sál okkar,
og hún ferðast með ösku okkar,
í umlykjandi faðm þinn,
er samruninn er fullkomnaður.
er samruninn fullkomnar okkur,
á degi dóms og hreinsunar
12. Afbrigði XII
Lyrics in plain text format